Bandaríkin og endalokin

Hvert fór tíminn eiginlega? Nú er þetta bara búið. Við sitjum hér í New York og drepum tímann áður en við tökum lestina út á flugvöll, en við förum í loftið klukkan 8 í kvöld og lendum rétt fyrir 7 í fyrramálið á íslenskum tíma. Síðustu 11 dagana höfum við spókað okkur um hérna í Bandaríkjunum og ætlum að segja aðeins frá þessum síðustu dögum ferðalagsins.

Við sem sagt tókum á loft frá Nadi á Fiji klukkan 22 þann 7. febrúar og lentum í Los Angeles klukkan 12 á hádegi, einnig þann 7. febrúar eftir langt 10 tíma flug. Við flugum í gegnum vegabréfseftirlitið og það kom okkur eiginlega á óvart að öryggismálin væru ekki meiri á flugvellinum. Við áttum pantað hostel á Crenshaw Blvd sem er nokkuð miðsvæðis í borginni. Hostelið sjálft var bara íbúðarhús með kojum í herbergjum og allt mjög heimilislegt og okkur leið strax mjög vel þarna.
Fyrst við áttum svona mikið eftir af deginum fórum við upp á Hollywood Blvd og röltum þar um. Það var nokkuð erfitt að horfa niður á stjörnurnar og horfa í kringum sig á þessa flottu götu um leið, en einhvernveginn tókst það.

Andri með sínum manni

Andri með sínum manni

Okkur strákunum var nú frekar kalt eftir að hafa verið svo góðu vanir í langan tíma, en við létum okkur hafa það að fara í útsýnistúr um Hollywood og Beverly Hills á opnum bíl þarna seinni partinn. Þar rúntuðum við um og keyrðum framhjá mörgum stórstjörnuhúsum, m.a. Brad Pitt, David Beckham, Jennifer Aniston, 50 Cent, The Playboy Mansion, gamla húsið hans Michael Jackson og fleiri og fleiri og fleiri.

Þetta ætti að vera kunnuglegt

Þetta ætti að vera kunnuglegt

Þessi dagur, 7. febrúar, verður svo lengi í minnum hafður en fyrir okkur var hann rúmlega 40 klukkustunda langur, geri aðrir betur!
Daginn eftir lá leið okkar í Universial Studios þar sem við eyddum deginum í nokkrum kulda. Okkur leið bara eins og litlum strákum aftur, þetta var alveg ótrúleg veröld.

???????????????????????????????

Við skemmtum okkur konunglega en það besta var að við fórum í túr um kvikmyndaverð sjálft og sáum þar mörg fræg sett, meðal annars hvar Jaws var tekin upp, slysstaðinn í War of The Worlds með Tom Cruise og Wisteria Lane, sem margir ættu að kannast við úr Aðþrengdum Eiginkonum, ásamt heilmiklu í viðbót.

Kött!

Kött!

Á sunnudeginum lá leið okkar að Venice Beach, sem er þekkt fyrir að hýsa ýmsa furðufugla. Það var engin lygi, en við röltum þarna um strandgötuna og sáum margt stórfurðulegt, en stemningin var skemmtileg.

Þessi hoppaði á hrúgu af brotnu gleri. Fífl

Þessi hoppaði á hrúgu af brotnu gleri. Fífl

Mánudaginn 11. rifum við okkur svo upp fyrir klukkan 6 þar sem leiðin lá til San Francisco. Þetta var heljarinnar ferðalag, við byrjuðum á tveggja tíma rútuferð til Bakersfield, þaðan sem við tók 6 klukkustunda lestarferð að úthverfi San Francisco og enduðum svo á rútuferð inn í miðborgina. Það fór einstaklega vel um okkur í lestinni, en um borð var frítt net og við þurftum nú varla meira.
Við vorum búnir að koma okkur í samband við skólasystur okkar úr MA hana Bergljótu, en hún er au-pair í úthverfi San Francisco og þar var okkur boðin gisting sem við þáðum með miklum þökkum. Við vorum komnir þangað að kvöldi mánudags og mikið var nú gott að sofa í góðu rúmi svona til tilbreytingar.
Á þriðjudaginn lá svo leið okkar inn í San Francisco þar sem Bergljót fór með okkur á alla helstu ferðamannastaðina eins og Golden Gate Bridge, Coit Tower auk þess sem við keyrðum niður hina frægu Lombard Street.

Strákarnir við Golden Gate

Strákarnir við Golden Gate

Nýbúin að keyra niður Lombard Street

Nýbúin að keyra niður Lombard Street

Úr Coit Tower

Úr Coit Tower

Borgin er þekkt fyrir sína alræmdu þoku en veðrið lék við okkur þennan þriðjudaginn og skartaði hún sínu fegursta. Okkur finnst hún nú heldur hlýlegri en Los Angeles, en það var þó mun meira af götufólki þarna sem var mikið að nálgast okkur. Við höfum nú vanist því á okkar ferðalagi á meðan aðrir sem áttu leið um götur borgarinnar voru nokkuð viðkvæmari fyrir því en við.

Við skoðuðum nú flest það sem hægt er að skoða í San Francisco þennan dag svo daginn eftir vorum við mest í rólegheitum í nánasta umhverfi Berkeley, þar sem við gistum. Um kvöldið skelltum við okkur svo í bíó, og við getum nú vottað fyrir það að íslendingar þurfa lítið að kvarta yfir miðaverðinu miðað við það sem við höfum borgað fyrir miðann í þau skipti sem við gerðum okkur slíkan dagamun í ferðinni.
Við áttum flug til New York rúmlega 6 á fimmtudagsmorguninn og reiknuðum nú alltaf með að koma okkur bara á flugvöllinn kvöldið áður, en það var svoleiðis gert vel við okkur að við fengum far á flugvöllinn um nóttina og þökkum við Bergljótu og au-pair fjölskyldunni hennar kærlega fyrir allt sem þau gerðu fyrir okkur.

Flugið til New York var um 5 tímar og lentum við þar klukkan 3 að staðartíma. Það var valentínusardagurinn og bauð flugfélagið upp á freyðivín í tilefni dagsins, ágætt að skola því niður svona í morgunsárið! Það var ískalt þegar við biðum eftir lestinni á flugvellinum inn í borgina og greinilegt að New York hefur viljað að við værum í æfingu fyrir komuna til Íslands.
Við vorum með gistingu á frábærum stað á Manhattan, alveg við suðvestur enda Central Park með subway-lestarstöð nokkrum húsaröðum frá svo við vorum vel settir. Þetta gistiheimili er reyndar alveg stórskrítið og er meira eins og elliheimili, en við vorum með okkar eigið herbergi svo það slapp til. Við notuðum við kvöldið til þess að rölta um nágrennið og það var virkilega gaman að fá New York svona beint í æð og hvað þá stemninguna á valentínusardaginn.
Föstudagurinn var svo túristadagur út í gegn. Við byrjuðum á að taka lestina niður á neðsta hluta Manhattan og tókum þar ferju út á Staten Island. Siglt er framhjá Frelsisstyttunni frægu, en hún er nú mikið minni en maður hefði ímyndað sér. Voldug var hún þó!

???????????????????????????????

 

Strandlengja Manhattan

Strandlengja Manhattan

Við röltum svo upp eftir Manhattan, skoðuðum 9/11 Memorial Site, en nú eru framkvæmdir langt komnar í nýju turnana.

Minningarstaðurinn og nýr turn í byggingu í baksýn

Minningarstaðurinn og nýr turn í byggingu í baksýn

Áfram héldum við og nú var röðin komin að Empire State Building og vorum við þar uppi akkurat í ljósaskiptunum, svo við fengum að sjá yfir borgina bæði í ljósu og dimmu má segja. Það var virkilega tilkomumikið!

Úr Empire State. Virkilega flott!

Úr Empire State. Virkilega flott!

Laugardagurinn fór að mestu í að flakka á milli verslana og bættum við vel í töskurnar þann daginn. Um kvöldið héldum við svo á Times Square og stemningin þar var alveg með ólíkindum, hrikalega gaman að rölta þar um.

525521_4891567880918_1465681416_n

Við enduðum svo á að kíkja á uppistand á litlum klúbbi í nágrenninu sem kitlaði hláturtaugarnar mjög vel. Í gær röltum við svo um Central Park í skítakulda, en það var einhver sjarmi yfir öllu saman í kuldanum. Við erum virkilega hrifnir af New York og nutum þess í botn að rölta um hana og fá beint í æð. Sannarlega borg sem hægt er að koma til aftur og aftur.

Nú hins vegar er komið að heimferð. Ekki óraði okkur fyrir því að þetta mundi líða svona hratt þegar við lögðum af stað þann 10. október. Við höfum séð bæði það góða og það slæma í heiminum og komum reynslunni ríkari heim. Þetta hefur verið ógleymanleg upplifun og erum við þakklátir hvað allt hefur gengið vel fyrir sig. Við höfum aldrei lent í neinum pirring við hvorn annan allan þennan tíma og aldrei hefur verið neitt vesen svo við völdum greinilega rétta ferðafélagann.

Að endingu viljum við þakka öllum þeim sem hafa fylgst með blogginu okkar í gegnum þennan tíma, það hefur verið mjög notalegt að heyra af öllum þeim sem fylgjast með.

Strákarnir skála á leiðinni til New York

Strákarnir skála á leiðinni til New York

Takk fyrir okkur!

Auglýsingar
Birt í Bandaríkin | 9 athugasemdir

Nýja Sjáland og Fiji

Ætli sé ekki kominn tími á færslu, og hún er svo sannarlega í lengri kantinum, en við höfum verið gríðarlega mikið á ferðinni utan netheima. Það hefur því ýmislegt drifið á okkar daga en við stiklum á stóru hér í þessari færslu, því annars þyrfti liggur við að fara að geta heimilda í textanum. Við byrjum á að segja frá dvöl okkar í Nýja Sjálandi, en við höfðum þar 10 daga sem var alltof lítið. Við urðum gífurlega hrifnir af landi og þjóð og hefðum glaðir viljað vera mikið lengur.

En allavega, við flugum til Nýja Sjálands 21. janúar síðastliðinn og lentum í borginni Auckland. Við komum okkur inn í borgina og á hostelið okkar sem var mjög miðsvæðis. Það fyrsta sem við tókum eftir var að þarna var miklu kaldara loftslag miðað við það sem við vorum vanir í Ástralíu. En í Auckland vorum við í eina nótt og fórum eldsnemma morguninn 22. af stað, en við vorum bókaðir í ferð með rútufyrirtækinu Stray um norðureyju Nýja-Sjálands. Þetta fyrirtæki er mjög sniðugt, en þar ertu í hópi ferðalanga og stoppað á alls kyns áhugaverðum stöðum og þú getur hoppað úr hvar sem er og sameinast svo bara næsta hóp þegar þú vilt halda áfram ferðinni.
Þennan fyrsta dag lá leiðin frá Auckland til Hahei sem er lítill bær við austurströndina. Við komum þar rétt eftir hádegi og dagurinn fór í að rölta um svæðið og skoðuðum þar líka Cathedral Cove í steikjandi hita. Þetta var mjög fallegur staður og meðfylgjandi eru nokkrar myndir.

???????????????????????????????

Fyrri myndin er tekin á höfðanum í bakgrunn

Fyrri myndin er tekin á höfðanum í bakgrunn

???????????????????????????????

Um kvöldið var svo stórt grill fyrir allan hópinn þar sem mikið var spjallað. Eftir matinn var svo haldið á Hot Water Beach en sú strönd er þekkt fyrir að hafa heitt rennandi vatn undir sandinum. Við vorum á leiðinlegum tíma hvað varðar fjöru og flóð svo við mættum þarna í niðamyrkri með skóflur og grófum okkur heita potta á ströndinni sem var nokkuð áhugavert.
Morguninn eftir var svo lagt af stað á slaginu 7:30 og haldið til Raglan sem er á vesturströndinni, en þar gistum við á litlu hosteli í miðjum skógi. Sumir fóru í brimbrettatíma en við og fleiri höfðum það bara náðugt á þessum fallega stað. Morguninn eftir, 24. jan, var haldið af stað klukkan 8 og byrjað á því að fara í hellaskoðun. Við völdum ferð sem fór í tvo hella, fyrst einn sem er þekktur fyrir að hafa mikla glóorma, en eins og nafnið gefur til kynna þá eru það ormar sem lýsa í myrkri. Það var ansi gaman, en í hellinum var vatn og við flutum um hann á báti í algjöru myrkri og horfðum á ormana, svo það var eins og verið væri að horfa upp í stjörnubjartan himinn. Hinn hellirinn var hins vegar þurr og þar löbbuðum við nokkuð djúpt niður og skoðuðum, sem var mjög gaman.

Tilbúnir í hellaskoðun

Tilbúnir í hellaskoðun

Inni í seinni hellinum

Inni í seinni hellinum

 

Eftir hellaskoðunina var keyrt áleiðis til Rotorua, en við gistum í útjaðri þess á stað sem heitir Mourea. Þar gistum við hjá alvöru Maori ættbálki og byrjuðum á formlegri athöfn þar sem hópurinn var vígður inn í ættbálkinn. Þetta var mjög áhugavert allt saman og gaman að kynnast háttum fólksins, en um kvöldið löbbuðum við um nærliggjandi skóg þar sem þeir innfæddu fræddu okkur um lækningamátt þeirra jurta sem þar má finna.
Í þeirra heilagasta húsi var svo komið fyrir dýnum um allt gólf þar sem allir sváfu. Meðlimir ættbálksins sátu með okkur allt kvöldið og spjölluðu við okkur, við máttum spurja að vild um þeirra hefðir og sögu og það var mjög áhugavert að taka þátt í því.

Fengum sýningu um kvöldið

Fengum sýningu um kvöldið

Gistiplássið

Gistiplássið

 

Eftir morgunmat morguninn eftir og kveðjustund var svo lagt af stað og komið við í miðbæ Rotorua, en hann er umkringdur miklu hverasvæði og lyktin í bænum var alveg eftir því. Við röltum þarna um og skoðuðum en þetta var nú bara hálfpartinn eins og á Mývatni, ekkert sem við höfum ekki séð áður.

???????????????????????????????
Áfram var svo haldið og seinni partinn vorum við komin til Taupo og gistum þar í miðjum bænum. Eftir að hafa komið okkur fyrir þar fórum við svo að baða okkur í lítilli á sem rennur við bæinn en í henni rennur sjóðandi heitt vatn. Þar sem sú á sameinast annarri kaldri er vinsælt að skella sér út í og það var ansi gaman.
Morguninn eftir var svo lagt óvenju seint af stað, eða klukkan 9. Þá var keyrt á einn afskekktasta dvalarstað landsins, þorpið Whakahoro og gistum þar í Blue Duck Station  Þangað var brött og mikil leið með hrikalega fallegu landslagi og það sem meira er, alveg ósnortnu vegna þess hversu afskekkt þetta er.
Við og fleiri úr hópnum tókum okkur saman og fórum í göngu um svæðið. Fyrst var komið að fossi sem var alveg hrikalega fallegur og hægt að vera upp við hann bæði að ofan og neðan. Sumir skelltu sér til sunds en vatnið var alveg ískalt.

Við fossinn

Við fossinn

Áfram hélt svo gangan yfir hóla og hæðir í steikjandi hita og blankalogni og tóku nú brekkurnar heldur betur á lærin, en í heildina var hringurinn um 11km. En það var alveg þess virði þegar upp var komið, útsýnið var alveg stórkostlegt.

???????????????????????????????

???????????????????????????????

Um kvöldið var svo tendraður varðeldaður og sátu þar allir saman að grilla sykurpúða. Það var þó farið snemma í rúmið enda var lagt af stað á slaginu 7 morguninn eftir, og það ekki að ástæðulausu, en fyrir lá að ganga Tongariro Alpine Crossing sem er á lista yfir topp 10 daggönguleiðir í heiminum. Við teygðum sem betur fer vel á eftir gönguna deginum áður og vorum því meira en tilbúnir í slaginn. Í nóvember fór hins vegar að krauma í fjallinu og því er síðari hluti gönguleiðarinnar lokaður, svo þegar upp á topp er komið þarf að snúa aftur til baka. Við létum það nú lítið á okkur fá og nutum okkur vel í náttúrunni, en allt svæðið minnti okkur mikið á Ísland.

Þetta gæti alveg eins verið á Íslandi

Þetta gæti alveg eins verið á Íslandi

Fjallið í bakgrunn kannast vonandi nokkrir við, Mount Doom úr Lord of the Rings. Þar var eitt stykki hringur bræddur í veseni sem tók þrjár bíómyndir

Fjallið í bakgrunn kannast vonandi nokkrir við, Mount Doom úr Lord of the Rings. Þar var eitt stykki hringur bræddur í veseni sem tók þrjár bíómyndir

 

???????????????????????????????

Í heildina var þessi ganga hjá okkur 19km og gríðarlega brött á köflum. Samtals tók þetta um 6 klukkustundir og sjaldan eða aldrei hefur verið jafn gott að opna einn bjór eins og eftir þetta dagsverk. Við gistum svo í National Park, en nú var komið að því að kveðja hópinn okkar því tíminn var á þrotum. Á meðan þau héldu áfram niður til Wellington og áleiðis á suðureyjuna urðum við eftir aðra nótt í National Park, og tókum rútu aftur upp til Auckland 29. janúar og komum þangað sama kvöld.
Það var skrítin tilfinning að vilja ekki yfirgefa landið, en hingað til var þetta yfirleitt orðið gott á hverjum stað þegar komið var að flugi, en það var annað upp á teningnum hér. Við vildum svo sannarlega halda áfram að ferðast um þetta fallega land.
Í Auckland vorum við í tvær nætur, en hvorugur okkar kann vel við þá borg. Hún er of mikil borg fyrir okkur og gefur ekki rétta mynd af Nýja Sjálandi og vildum við frekar geta verið úti á landi í þessari fallegu náttúru í staðinn fyrir að vera fastir á malbikinu. Við reyndum þó að gera gott úr þessu og skelltum okkur meðal annars á The Hobbit í bíó á stærsta bíótjaldi landsins. Það var virkilega gaman að sjá myndina í landinu þar sem hún er að mestu tekin upp, og gátum við alveg misst okkur í að horfa á landslagið í myndinni.
Þann 31. janúar var svo komið að flugi til Fiji. Við höfðum keypt þar pakka þar sem við myndum ferðast um Yasawas eyjurnar sem áttu að vera mikil paradís, en innifalið í því var allur matur og allt svo við þurftum ekki að hafa áhyggjur af neinu. Ekki byrjaði þó tíminn okkar í Fiji vel, því í vegabréfseftirlitinu hafði enginn séð vegabréf frá Íslandi og var okkur hent í hliðarherbergi þar sem gengið var úr skugga um að við vildum ekkert illt. Á endanum var okkur þó hleypt í gegn og gátum því andað léttar og vorum komnir á hostelið í Nadi um kvöldmatarleytið.
Það var hins vegar lítill tími til hvílu, því við vorum sóttir klukkan 7 morguninn eftir og fluttir á höfnina, þaðan sem við tókum ferjuna til Nabua Lodge á eyjunni Nacula, sem var okkar fyrsti viðkomustaður í þessum eyjapakka okkar. Þangað var tæplega 5 tíma sigling og var tekið á móti okkur með gítarspili og söng við komuna þangað. Fyrir um það bil mánuði síðan reið fellibylur yfir eyjarnar og sáum við vel merki þess og alla daga voru menn að byggja upp eftir skemmdirnar sem urðu af völdum hans.

Sést illa á myndinni, en svæðið var nokkuð illa farið

Sést illa á myndinni, en svæðið var nokkuð illa farið

Þann 2. febrúar fórum við svo eftir morgunmat að skoða Sawailau hellana sem var í um 20 mínútna bátsfjarlægð. Þetta voru ansi flottir hellar, en þeir voru fullir af vatni og því syntum við um þá. Það er annar hliðarhellir og þangað þurfti að kafa í gegnum göng til að komast í hann og það er alveg ljóst að það er ekki fyrir alla, en við létum okkur nú hafa það og sáum ekki eftir því, en þetta var virkilega flottur staður.
Þann 3. febrúar fórum við svo aftur í ferjuna, í þetta skiptið lá leiðin aftur í áttina að höfninni, en við fórum úr á White Sandy Beach Resort á eyjunni Naviti. Þar hittum við krakka frá Noregi og Bretlandi sem við vorum mikið með og náðum við vel saman. Þarna vorum við í tvær nætur og mestur tími fór bara í almenna afslöppun á þessum fallega stað. Þetta var alveg eins og í bíómyndunum, bara legið í hengirúmi á milli pálmatrjáa og sleikt sólina á milli þess sem stokkið var í sjóinn, ekki leiðinlegt.
Við kvöddum White Sandy Beach þann 5. febrúar, en þann morgun fórum við í snorkel ferð og skoðuðum meðal annars flugvélaflak úr síðari heimsstyrjöldinni sem var mjög áhugavert. Við komum einnig við á stóru kóralrifi þar sem við svömluðum um og skoðuðum.
Ferjan tafðist talsvert en þegar hún loks kom flutti hún okkur á Kuata Natural Resort á eyjunni Kuata. Þar vorum við í eina nótt í algjörri afslöppun á gríðarlega fallegum stað eins og myndirnar sína.

???????????????????????????????

???????????????????????????????

Við nutum okkar alveg í botn á eyjunum, en þar vorum við hvorki með símasamband eða heitt vatn og rafmagni var hleypt á í skömmtum sem var bara mjög notalegt. Á hverju kvöldi var svo slegið upp sýningu hjá þeim innfæddu þar sem var sungið og dansað og það var mjög gaman að fylgjast með því.

Í gær, 6. febrúar, komum við síðan aftur á meginlandið til Nadi þar sem við gistum í nótt. Núna erum við svo að bíða eftir því að verða skutlað á flugvöllinn, en klukkan 22 að staðartíma förum við í loftið áleiðis til Los Angeles. Þetta er um 11 tíma flug, en vegna tímamismunarins þá lendum við klukkan 12 á hádegi sama dag og við fórum. Fimmtudagurinn 7. febrúar verður því í lengri kantinum hjá okkur strákunum, sem er ansi skondið.

Við látum þetta gott heita að sinni enda búið að vera stór og mikil færsla, jafnvel þó aðeins hafi verið stiklað á stóru hlutunum. Örvæntið þó ekki, lengri útgáfan er væntanleg í verslanir Eymundsson um mánaðarmót.

Birt í Fidji, Nýja Sjáland | 8 athugasemdir

Ástralía kvödd

Já svona er tíminn fljótur að líða, en í fyrramálið fljúgum við burt frá Ástralíu, sem hefur verið heimaland okkar í rúman mánuð. Við erum meira að segja orðnir svo þjóðernissinnaðir að við sátum límdir við skjáinn í gær og fylgdumst með þegar heimamaðurinn Bernard Tomic tók á móti sjálfum Roger Federer á Australian Open í tennis og hvöttum okkar mann til dáða, enda samlandar – eða hér um bil.

Í síðasta bloggi vorum við á leið til Townsville, en þangað komum við á mánudaginn síðasta. Það var um hálftíma ganga frá rútustoppinu að höfninni í steikjandi hita, þaðan sem við tókum ferju yfir til Magnetic Island sem er lítill og fallegur staður. Þar hoppuðum við upp í strætó eins og innfæddir sem flutti okkur á hostelið okkar.
Hostelið var mjög fínt, alveg við ströndina með fallegu útsýni yfir sjóndeildarhringinn. Herbergið okkar var hins vegar ekki eins gott, en það var lítið og þröngt bjálkahús með 8 kojum saman í haug í óloftkældu rými. En við létum okkur hafa það að gista þarna í tvær nætur.
Á þriðjudeginum hoppuðum við aftur upp í strætó, buðum Phil bílstjóra góðan daginn eins og hinir innfæddu og lá leiðin nú í hálfgerðan villidýragarð, Koala Sanctuary. Þar vorum við í litlum hópi fólks og fengum túr um garðinn með okkar eigin landverði, sem fræddi okkur um dýrin og umhverfi þeirra í leiðinni.

Hún var sultuslök, enda frá Texas

Hún var sultuslök, enda frá Texas

Fyrst sáum við saltvatnskrókódíl og fengum að halda á honum, sem var fínt. Andri ætlaði að hagræða honum aðeins fyrir betri myndatöku en vörðurinn var fljótur að stoppa hann af þar sem þessi kvikindi eru ansi slungin.

Menn voru ekki alveg vissir með þetta

Menn voru ekki alveg vissir með þetta

Næst var komið að nokkrum fuglategundum og einum lötum wombat, sem var nú lítið að stressa sig á hlutunum. Næst héldum við svo að skriðdýrabúrinu þar sem voru skjaldbökur til að halda á og auk þess sem alls kyns eðlur og dótarí fékk að skríða á okkur.

IMG_1399

 

Skjaldbakan skyldi lítið í hlutunum

Skjaldbakan skyldi lítið í hlutunum

Brugðið á leik með eitt skriðdýrið

Brugðið á leik með eitt skriðdýrið

Eftir það var svo komið að aðalnúmerinu, en þá var komið með kóalabjörn sem hópurinn fékk að halda á. Þetta eru nú grimmari skepnur en þær líta út fyrir að vera og þurftum við að leika tré til þess að vekja ekki grunsemdir hjá honum. Með öðrum orðum, standa kyrr og passa að knúsa hann ekki of mikið.

IMG_1423

Eftir að allir höfðu fengið nóg af kóalabirninum kom vörðurinn askvaðandi með eitt stykki slöngu. Þetta eru nú ekki dýr að okkar skapi, en við létum okkur nú hafa það að fá hann um hálsinn þó maður hafi nú alls ekki verið í rónni, þó sérstaklega Orri miðað við skrækina sem komu frá honum.

Slangan pósaði með

Slangan pósaði með

Ef okkur var ekki öllum lokið með slönguna gerðist það svo sannarlega næst, þegar vörðurinn tók upp box með tarantúlu. Það féll nú ekki vel í kramið hjá hópnum (skiljanlega!) og var þessum góða túr því lokið þarna.

Daginn eftir var svo komið að brottför og tókum við ferjuna aftur til Townsville rétt fyrir hádegi. Aftur var svo hálftíma gangur á rútustöðina og þaðan um þriggja tíma ferð til Mission Beach, en þar vorum við einnig í tvær nætur. Þar var nú lítið planað nema að hlaða batteríin á ágætu hosteli þar, þó aftur hafi herbergið brugðist okkur en það var eins og fangaklefi, berir veggir með tveimur lélegum kojum.
Á fimmtudaginn var Andri svo kominn með nóg af sárum og gömlum bitum sem hann er með á löppunum og kíkti á einu læknisstofuna í plássinu. Maður hefur nú litlar áhyggjur af smá skurðum heima á Íslandi en það er víst annað mál hér, þar sem honum var troðið inn í flýti í annars uppbókaðan dag á læknastofunni. Það var sem sagt komin slæm sýking í sárin og var læknirinn fljótur að skrifa upp á lyfseðil fyrir sýklalyfjum og kremi til þess að vinna gegn þessu, sem að hans sögn átti að drepa allt nema mann sjálfan.

Á föstudaginn var svo komið að síðustu rútuferðinni í Ástralíu þegar við tókum rútu til Cairns, endastöðvar okkar í þessu ágæta landi. Nú eru sem sagt að baki um 50 tímar í rútu þessa um það bil 3000km leið frá Sydney, uppeftir austurströndinni alla leið til Cairns. Já, svo sannarlega tímamót.
Það var þó eitt atriði eftir í Ástralíupakkanum, en í dag fórum við í siglingu hér um The Great Barrier Reef í alveg dúndur veðri jafnvel þó spáð hafi verið rigningu. Við áttum pantaða köfun í ferðinni en Andri sleppti henni að læknisráði svo Orri fór bara. En dagurinn var í heild sinni virkilega góður og heppnin var svo sannarlega með okkur í siglingunni um þetta fallega svæði, því um leið og við komum að landi aftur í Cairns þá fór að rigna.

Á bátnum í Great Barrier

Á bátnum í Great Barrier

Horft yfir hluta kóralrifsins

Horft yfir hluta kóralrifsins

Nú tekur hins vegar við pökkun fyrir flugið á morgun, en í fyrramálið fljúgum við til Auckland í Nýja-Sjálandi. Við dveljum í 10 daga í Nýja-Sjálandi, en þar erum við búnir að kaupa vikuferð sem fer um norðureyjuna, upplýsingar um hana má sjá HÉR en hún er í grófum dráttum þessi:

Auckland – Hahei – Raglan – Mourea – Taupo – Whakahoro – National Park – Auckland.

Þarna á milli verður svo stoppað á fullt af áhugaverðum stöðum, en eins og flestir vita er landið þekkt fyrir ótrúlega náttúru. Eftir þessa 10 daga í Nýja-Sjálandi fljúgum við svo til Fiji, en þar erum við einnig búnir að bóka pakka og má skoða allt um hann HÉR, en í honum er bókstaflega allt innifalið, gisting, matur og allt svo við þurfum ekkert að gera annað en að njóta þess að vera til.

Við vitum ekkert hvernig er með net í Nýja-Sjálandi og eins og kom fram þá verðum við mikið á ferðinni, en við reynum að henda inn færslu um tímann okkar þar áður en við höldum til Fiji.

Birt í Ástralía | 7 athugasemdir

Whitsundays

Þá finnum við loks tíma til að henda inn færslu héðan úr hitanum, en það er búið að vera alveg ólíft úti vegna hita undanfarna daga.

Ef við höldum áfram frá síðustu færslu, að þá komum við á þetta líka indæla hostel í 1770 um miðnætti aðfaranótt laugardagsins 5. janúar og vorum þar fram á mánudagskvöld. 1770 er mjög lítill bær og var hostelið staðsett rétt fyrir utan hann og leit út eins og hálfgerður herragarður. Það er rekið af eldri hjónum sem höfðu allt sem heimilislegast og tókst það heldur betur til og fór mjög vel um okkur þarna.
Mestur tíminn fór í algjöra afslöppun á sundlaugarbakkanum í dúndur veðri. Við fórum inn í bæinn á sunnudeginum en vorum nú fljótir til baka, það var bara ekkert þarna. Samt áhugavert að rölta um svona týpískan lítinn Ástralskan bæ, en það var nú meira við að vera á hostelinu.

Sundlaugarbakkinn

Sundlaugarbakkinn

Eftir góða og rólega helgi á hostelinu í 1770 var komið að næturrútu aðfaranótt þriðjudags til Airlie Beach. Það var álíka mikil hörmung og fyrri næturrútan okkar hér, ómögulegt að koma sér fyrir og vorum við vel aumir í hálsinum þegar við loks komum á áfangastað eftir 9 tíma ferð. Við gistum í Airlie Beach í tvær nætur þar sem við vorum mikið í Airlie Beach Lagoon, en það er í stuttu máli risastórt sundlaugarsvæði rétt við ströndina, en það er svo mikið af marglyttum í sjónum svo allir koma þangað, enda ekki skrítið þar sem svæðið er alveg frábært.

Airlie Beach Lagoon

Airlie Beach Lagoon

Á fimmtudaginn var svo komið að hápunktinum hingað til í Ástralíu, tveggja nátta siglingu um Whitsundays. Það er búið að vera algjör hitabylgja yfir okkur hérna í Airlie Beach og aðstæður gerðust ekki betri til siglingar. Við vorum á bátnum Tongarra og vorum við rúmlega 20 í hópnum, ásamt tveimur glaumgosum sem skipuðu áhöfnina.
Fyrsti dagurinn fór aðallega í að sigla að náttstaðnum sem var um fjögurra tíma sigling. Það fór nú ekki illa um mann og lágu flestir uppi á dekki að sleikja sólina, sem lét sig svo sannarlega ekki vanta. Já okkur leið nú ekki illa að liggja í sólbaði og sjá umhverfi Whitsundays þegar við sigldum framhjá.
Við komum á náttstaðinn rétt um myrkur og um kvöldið spjallaði hópurinn mikið saman og alltaf vekur það jafn mikla athygli að við séum frá Íslandi. Það var nú ekki kojupláss fyrir alla en það kom ekki að sök því dýnum og tilheyrandi var hent upp á dekk og þar lágu allir saman undir tjaldi sem strengt var yfir. Það var nú bara notalegt að rugga í svefninn á þessum frábæra stað.

Haugarnir a dekkinu

Haugarnir a dekkinu

Það var ræs klukkan 7 og eftir morgunmat var hópurinn ferjaður í land á nærliggjandi eyju og lá leiðin á hina frægu Whitehaven beach  en hún er einmitt á heimsminjaskrá. Það er ekki til neitt til þess að lýsa þessum ótrúlega stað, það er bara einfaldlega ekki hægt. Þarna vorum við í góða þrjá tíma og eftir smá rigningu um morguninn lék veðrið við okkur. Myndirnar frá staðnum verða að tala sínu máli, en staðurinn er enn magnaðri en myndirnar sína.

IMG_1292

IMG_1314

IMG_1324

IMG_1342

IMG_1349

IMG_1348

Við komum aftur um borð í Tongarra um hádegi þar sem akkerið var rifið upp og við sigldum á einn besta snorkel stað á Whithaven svæðinu. Þar skelltu allir sér út í með grímur og tilheyrandi og við snorkluðum þar um í dágóðan tíma. Það var nú gaman að svamla um í torfu af alls kyns fiskum í öllum regnbogans litum og ef maður rétt setti út hendina gat maður snert þá, alveg merkilegt.
Eftir snorklið var svo haldið áfram og fórum við upp á litla sandeyju þar sem við horfðum á sólsetrið. Þetta var ansi magnað.

IMG_1368

IMG_1360

Seinna kvöldið var svo svipað því fyrra, liðið að spjalla saman og hópurinn orðinn aðeins kunnugri en fyrra kvöldið. Aftur var strengt tjald yfir dekkið þar sem var sofið, sem var nú eiginlega hálfgerð synd því himininn var alveg ótrúlega fallega stjörnubjartur. En fyrst það var nú rigningatímabil, þó það liti ekki þannig út, var það gert til öryggis.

Aftur var vaknað klukkan 7 og eftir létta hressingu hentum við okkur í galla og út í sjó að snorkla, en þessi staður var frægur fyrir skjaldbökur. Þrátt fyrir að skyggnið væri ekki frábært þá sáum við samt skjaldböku og kepptist hópurinn við að synda með henni og klappa henni, ansi gaman.
Þegar við komum aftur í bátinn var svo tími til kominn að halda í land eftir frábæra ferð. Veðrið lék svo sannarlega við okkur á leiðinni heim, sem og alla ferðina, og var nánast óbærilegt að sitja uppi á dekki í sólinni. Á miðri leið í land var svo drepið á vélinni og stokkið út í sjó til að kæla sig niður, það var ansi hressandi.

Við komum aftur til Airlie Beach um hádegi í gær, alsælir eftir ferðina sem er algjörlega hápunkturinn á annars góðri Ástralíudvöl. Þetta fannst okkur svo sannarlega að lifa lífinu, sitjandi uppi á dekki í glampandi sól að sigla um þetta fallega svæði.
Við ákváðum nú að vera ekkert mikið meira úti í sólinni þennan daginn, enda búnir að vera að grillast í um 5 tíma þrátt fyrir að væri bara rétt rúmlega hádegi. Svolítið annað en á Íslandi þar sem fólk keppist við að ná hverri einustu sólarmínútu.
Það er heldur ekkert lát á hitanum í dag og nánast ólíft að vera úti. Okkur fannst nú tími til kominn að skella í eins og eina þvottavél, enda ekki gert það í tæpa tvo mánuði, eða síðan í Hoi An í Víetnam. Já svona er líf bakpokaferðalangsins.
Í fyrramálið tökum við svo rútu til Townsville þaðan sem við tökum ferju til Magnetic Island og þar munum við dvelja í tvær nætur. Við nálgumst nyrsta punkt okkar hér í Ástralíu, Cairns, óðfluga, en við eigum flug þaðan eftir rétta viku. Og fyrst við tölum um flug, þá er ekki nema 5 vikur í að við fljúgum heim. Mikið rosalega er þetta fljótt að líða.

Næsti áfangastaður er Nýja Sjáland, en við lendum í Auckland og erum þar búnir að bóka vikuferð um norðureyju landsins sem endar einnig í Auckland. Landið er þekkt fyrir ótrúlega náttúru og í þessari ferð verður stoppað á mörgum helstu stöðum norðureyjunnar. Það er bara spennandi.

Endum þetta á einni mynd af strákunum frá Whithaven Beach í ferð sem seint gleymist.

IMG_1333

Birt í Ástralía | 9 athugasemdir

Fraser Island og fleira

Gleðilegt nýtt ár héðan frá Ástralíu.

Í síðustu færslu vorum við í Brisbane þar sem við eyddum jólunum í rólegheitum. Á annan í jólum tókum við svo rútu til Noosa (linkur) sem er lítill bær á austurströndinni. Þar vorum við á ágætu hosteli og gistum í þrjár nætur í 16 manna sameiginlegu herbergi. Það er lítið að gera í Noosa nema fara á ströndina og í þjóðgarðinn sem er þar, og þangað fórum við daginn eftir að við komum, þann 27. desember.
Það var töluvert labb í garðinn frá hostelinu í alveg steikjandi hita. Það var boðið upp á nokkrar gönguleiðir um garðinn og við tókum góðan hring sem var um 7 km langur. Þar löbbuðum við fyrst meðfram strandlengjunni og alveg út á tanga en fórum í gegnum skóginn á leiðinni til baka. Þetta er virkilega flottur garður sem er nánast alveg ósnortinn og þarna lifa meðal annars villtir kóalabirnir ásamt ýmis konar eðlum.

Thessi vildi vera vinur okkar

Thessi vildi vera vinur okkar

Thad var fallegt ad labba tharna

Thad var fallegt ad labba tharna

Komnir ut a tangann

Komnir ut a tangann

Daginn eftir nýttum við daginn á ströndinni í frábæru veðri. Það voru svona þúsund manns þar saman komin enda aðstæður hinar allra bestu, og þar grilluðum við okkur vel ásamt því að svamla í sjónum. Kvöldið var svo heldur betur óvænt, en þegar við vorum að borða kvöldmat lentum við á spjalli við mann frá Ástralíu, strák frá Svíþjóð og stelpu frá Hollandi. Sá Ástralski er verkfræðingur sem var í langþráðu fríi og hann dældi drykkjum í liðið af barnum. Þannig gekk það allt kvöldið þar sem við sátum saman á hostelbarnum og hann sá um að fylla vel í glösin og vildi ekki fá neitt í staðinn. Þetta var mjög áhugaverður maður og við spjölluðum öll mikið saman fram á nótt, sannarlega óvænt en ánægjuleg stefna sem þetta kvöld tók.
Daginn eftir tókum við svo rútu til Rainbow Beach, en á leiðinni reiknuðum við saman hversu miklu sa Astralski hafði eytt og vorum við búnir að telja saman andvirði allavega 60 dollara á mann, sem er um 8 þúsund kall. Ágætt.
Rútuferðin til Rainbow Beach var einnig ansi áhugaverð, en í næsta sæti við okkur sat kona um fimmtugt, alveg haugafull og lét öllum illum látum. Það var nú skondið að fylgjast með henni rífa sig við alla í kring, en þetta varð nú fljótt þreytt og eiginlega bara frekar sorglegt að horfa upp á þetta.

Helsta ástæða þess að við dvöldumst á þessum stað, Rainbow Beach, var að við áttum bókaða ferð til Fraser Island á gamlársdag. Daginn áður var smá undirbúningsfundur fyrir ferðina þar sem okkur var skipt niður í hópa. Við vorum mjög heppnir með hóp, en með okkur var par frá Svíþjóð, tvær stelpur og strákur frá Þýskalandi og ein stelpa frá Kanada.
Við rifum okkur svo eldsnemma á lappir á gamlársdag, lestuðum bílana og lögðum af stað, en hver hópur var á eigin bíl, ágætum Land Cruiser sem var svo í samfloti við bílinn sem leiðsögumaðurinn var á. Það var um 10 mínútna ferjusigling yfir á Fraser Island og þegar þangað var komið kvöddum við öll þægindi og hossuðumst um í sandinum.

Verid ad lesta ferjuna

Verid ad lesta ferjuna

Thetta var nu ekki alltaf svona slett, en fallegt var thad

Thetta var nu ekki alltaf svona slett, en fallegt var thad

P1040290

Þennan fyrsta dag fórum við á einn helsta stað eyjunnar, Lake McKenzie og skelltum okkur þar til sunds. Eftir það lá leiðin í tjaldbúðirnar, en á leiðinni sprakk dekk á birgðakerrunni sem tafði okkur töluvert. En við komumst í tjaldbúðirnar og þar voru tilbúin tjöld fyrir okkur sem kom sér mjög vel, en það var komin þessi líka hellirigning. Okkur leist nú ekki alveg á blikuna að sitja í grenjandi rigningu á gamlársdag í litlu kúlutjaldi á eyju fyrir utan Ástralíu. En það var stemning í þessu.

P1040226

Stemningin i matarkofanum

Stemningin i matarkofanum

Það stytti sem betur fer upp og þá fór nú allt að líta betur út. Hópurinn eldaði svo kvöldmat og naut saman, en það var eldunaraðstaða og öll áhöld í boði fyrir hópana.

Allur hopurinn saman a gamlarskvold

Allur hopurinn saman a gamlarskvold

Í stað þess að horfa á Skaupið höfðum við annars konar skemmtun á gamlárskvöld, en með í för var hópur af Írum sem létu öllum illum látum, dansandi uppi á borðum í matkofanum, öskrandi og syngjandi og togandi buxurnar niður um hvorn annan allt kvöldið. Já þetta var svo sannarlega sýning.

Við í okkar hóp vorum nú heldur rólegri og sátum og spjölluðum með hvítvín í hönd og fylgdumst með þessum litlu, feitu og nöktu írsku karlmönnum skemmta sér. Á miðnætti söfnuðust svo allir saman, en í tjaldbúðunum voru nokkrir hópar svo samtals var þetta rúmlega 100 manns, og fögnuðu nýja árinu saman.
Það var nú erfitt að sofa almennilega í þessu blessaða tjaldi og voru því flestir komnir nokkuð snemma á fætur, meira að segja írsku fíflin. Við fögnuðum svo áramótunum aftur um morguninn á slaginu klukkan 10, en þá var miðnætti heima. Það var nú frekar skrítið að vera kominn á ról á nýársdag þegar maður gat ímyndað sér stemninguna heima á þeirri stundu.
Nýársdagur var svo langur og strangur, en við byrjuðum á að fara að Eli Creek og svömluðum þar í vatninu. Næst skoðuðum við skipsflak SS Maheno sem er hálfgrafið í sandinum á ströndinni, mjög áhugavert að sniglast í kringum það.

Vid flakid

Vid flakid

Eftir hádegi skoðuðum við svo Champagne Pools og Indian Head sem var mjög gaman.

Champagne Pools. Thetta var nu engin Grettislaug

Champagne Pools. Thetta var nu engin Grettislaug

Reglur brotnar vid Indian Head

Reglur brotnar vid Indian Head

Allan daginn höfðu þessir Írsku verið að staupa sig og voru orðnir vel blautir þegar komið var aftur í tjaldbúðirnar. Við í okkar hóp vorum hins vegar mjög þreytt eftir daginn og gripum bara í spil og höfðum það rólegt um kvöldið og skriðum snemma inn í tjald, enda var ræs klukkan sjö morguninn eftir til þess að skoða tvo staði í viðbót áður en haldið var heim.
Það gekk ágætlega að vakna en eftir að búið var að ganga frá var öllum safnað saman og sagt að okkur hefði nánast verið hent burt af eyjunni. Í ljós kom að á meðan við sváfum um nóttina hafði allt farið úr böndunum hjá þeim írsku sem endaði í hálfgerðu uppþoti svo þurfti að kalla til sjúkrabíl, sem var nú ekki lítið mál þarna á eyjunni. Nú voru allir pirraðir út í þá írsku, enda einn þriðji af ferðinni ónýtur. En það var lítið hægt að gera nema fara beint aftur heim og reyndu margir að fá skaðabætur enda ferðin dýr, en það gekk ekki neitt.

Þetta var í heildina mjög eftirminnileg ferð og öðruvísi upplifun en maður hefur kynnst áður, sérstaklega svona á áramótunum. Það var nú samt mjög gott að leggjast upp í rúm á hostelinu eftir að hafa sofið í tjaldi í tvær nætur.
Við höfum bara tekið því rólega á hostelinu hér í Rainbow Beach síðan við komum úr ferðinni, en nú erum við að bíða eftir rútunni sem flytur okkur til 1770 og verðum við komnir þangað um miðnætti í kvöld og verðum í þrjár nætur. Okkur er sagt að það sé nú lítið um að vera þar svo ætli við verðum ekki mest í rólegheitum á ströndinni. Maður hefur alveg heyrt það verra.

Nú er ekki nema um einn og hálfur mánuður í heimkomu, en þetta hefur liðið alveg ótrúlega hratt og erum við búnir að vera á ferðinni í rétt tæplega 3 mánuði, hreint ótrúlegt að hugsa til þess finnst okkur. En sama hvað þá verður nú alltaf gott að koma heim líka, þó við kunnum nú mun betur við okkur hér í sólinni heldur en í snjónum heima.

Birt í Ástralía | 5 athugasemdir

Fallhlífastökk og jól í Ástralíu

Jæja nú er jóladagur að kveldi kominn hér í Ástralíu og jólin eru vægast sagt með öðru móti en við eigum að venjast.

Í síðustu færslu vorum við í Sydney, en á fimmtudaginn tókum við næturrútu til Byron Bay og vorum komnir þangað á föstudagsmorgun eftir 14 tíma ferðalag. Það var nú ekki eins mikill lúxus og í Víetnam að vera í svefnrútu með kojum og hafði bílstjórinn meira að segja aldrei heyrt um svoleiðis. Þess í stað sátum við í hörðum sætum í venjulegri rútu og því var ómögulegt að koma sér fyrir. Æðisleg nótt með hóstandi ferðalöngum.
Eftir virkilega langa ferð komum við svo á hostelið okkar í Byron Bay á föstudag. Við vorum í lítilli íbúð með tveimur fjögurra manna herbergjum, en ásamt okkur var strákur frá Svíþjóð í okkar herbergi og í hinu þrír strákar frá Bretlandi og ein stelpa frá Bandaríkjunum. Okkur kom öllum mjög vel saman og spjölluðum mikið, en fólk er alltaf jafn forvitið um Ísland.
Seinni partinn mældum við okkur mót við fjórar skólasystur okkar úr MA, en þær eru einnig á ferðalagi um Ástralíu og voru einmitt staddar í Byron Bay. Við spjölluðum og deildum ferðasögum, en mikið var gott að tala íslensku við fólk aftur. Um kvöldið gerðum við svo vel við okkur og skelltum okkur í bíó á nýju James Bond myndina, Skyfall, og skemmtum okkur vel, en þetta var fyrsta bíóferð okkar erlendis.
Á laugardaginn rigndi með köflum og leist okkur lítið á það, en við vorum búnir að panta okkur ferð í fallhlífastökk takk fyrir pent. Það stytti þó upp þegar leið á daginn svo við gátum skellt okkur, og þvílík upplifun! Við pöntuðum stökk úr 14 þúsund feta hæð sem er það hæsta sem boðið er upp á í Ástralíu og spenningurinn var virkilega mikill. Það var líka merkilegt hvað það var ekki til stress í okkur, ekki einu sinni á leiðinni upp þar sem maður hélt að stressið myndi koma.
Í 14 þúsund feta hæð opnuðust svo dyrnar og það var tími til kominn að skella sér niður. Það var ansi sérstakt að vera með lappirnar dinglandi út úr flugvél í þessari hæð en það var enginn tími til að vera stressaður, stökkvararnir með okkur voru ekki að tvínóna við hlutina og niður fórum við. Það má með sanni segja að engin lífsreynsla hingað til jafnast á við þetta.

Ótrúleg upplifun

Ótrúleg upplifun

Kveðja til mömmu

Kveðja til mömmu

 

Við vorum í frjálsu falli í rúmlega mínútu og adrenalínið alveg í botni. Það er engan veginn hægt að lýsa þessu, að hrapa á hrikalegum hraða niður að jörðinni, alveg magnað. Fallhlífin virkaði nú sem betur fer svo við svifum rólega til jarðar þegar hún opnaðist, og útsýnið alveg frábært eins og gefur að skilja

Hrikalega gaman

Hrikalega gaman

Svifum létt til jarðar

Svifum létt til jarðar

 

Eftir frábæra lífsreynslu fórum við aftur upp á hostel, en um kvöldið var haldið stór grillveisla fyrir alla íbúa. Við vorum með okkar fólki úr íbúðinni og skemmtum okkur vel með öllu liðinu. Sunnudagurinn, Þorláksmessa, var heldur rólegri og komið að pökkun eftir góða daga í Byron Bay, en aðfangadagur hófst hjá okkur með fjögurra tíma rútuferð til Brisbane.
Hingað til Brisbane vorum við komnir um hádegi á aðfangadag og við tók nokkurt labb í miklum hita á hostelið okkar. Við erum hér í herbergi með tveimur japönskum stelpum, pari frá Suður-Kóreu og stelpu frá Danmörku. Það er virkilega fyndið að spjalla við þessi Asísku, og eftir allt sem við segjum um Ísland og jólin þar heyrist langt „vóóóóó“ í þeim með ekta Asískum hreim.
Eftir að hafa komið okkur fyrir var svo komið að jólainnkaupunum, en þrátt fyrir að vera ekki heima í dýrðinni þá skyldum við nú samt halda upp á blessuð jólin. Við fórum í markað hér í nágrenninu og keyptum allt sem þarf fyrir góða máltíð. Um kvöldið sýndi Andri svo hvað hann hefur lært á Bautanum og eldaði jólamáltíðina sem samanstóð af Áströlsku nautakjöti, steiktu grænmeti, kartöflum og ananas. Í eftirrétt var svo þessi dýrindis súkkulaðikaka sem við keyptum í markaðnum og rann hún vel niður með kaldri mjólk. Við fórum svo í okkar fínasta púss fyrir máltíðina og kveiktum á kerti í nafni frelsarans. Já það hafa það örugglega margir verra en við um jólin.

Verið að elda jólamáltíðina

Verið að elda jólamáltíðina

Jólaborðið

Jólaborðið

Jóladagur hefur verið hinn allra rólegasti og tærnar að mestu legið upp í loft enda allt lokað. Mjög fyndið að horfa yfir stræti Brisbane en hér var varla sála á ferli í dag. Á morgun höldum við svo til Noosa þar sem við gistum í þrjár nætur.

Við viljum annars senda okkar bestu jólakveðjur til allra ættingja og vina nær og fjær – sennilega eru flestir fjær. Andri vill einnig senda sérstakar kveðjur í Hjarðarlundinn núna á jóladag þar sem allir eru samankomnir eins og ávallt, og leiðinlegt að geta ekki verið með.

Gleðileg jól!

Birt í Ástralía | 7 athugasemdir

Sydney

Já, nú er óvenju stutt á milli frétta hjá okkur, en við erum sem sagt mættir til Ástralíu og sitjum hér á hostelinu okkar í Sydney og bíðum eftir rútu til Byron Bay. En það hefur nú ýmislegt gengið á þó það sé stutt síðan við létum heyra í okkur síðast.

Á mánudaginn var komið að flugi frá Balí til Sydney með þriggja tíma millilendingu í Kuala Lumpur. Flugið okkar var áætlað um 4 frá Balí og vorum við mættir fyrir klukkan eitt á flugvöllinn enda betra að vera snemma í því. Sem var sko heldur betur rétt.
Innritunin í flugið tók nú undarlega langan tíma og vorum við spurðir um vegabréfsáritun til Ástralíu. Við héldum nú að við þyrftum ekki svoleiðis fyrirfram samkvæmt síðu utanríkisráðuneytisins, en eitthvað hljótum við að hafa misskilið það þar sem þær máttu ekki innrita okkur í flugið án þess að vera með dvararleyfi í landinu. Nú var okkur öllum lokið og sáum fram á stórt og mikið vesen eins og við lentum í fyrir flugið til Víetnam.
Starfsfólk Malaysia Airlines var þó hjálpsemin uppmáluð og fylgdi okkur kona á skrifstofu þeirra á flugvellinum þar sem hún ætlaði að prófa að sækja um dvalarleyfi fyrir okkur. Við vorum orðnir alveg vonlausir og ekki hjálpaði til hvað blessuð konan var með enga tölvukunnáttu, en við gátum ekkert gert nema treyst á hana og reyndum að halda sönsum. Hún fyllti þó samviskusamlega um leyfið fyrir okkur og okkur til mikillar gleði kom strax í gegn að það hafi verið heimilað, en við bjuggumst við að þurfa að bíða eftir staðfestingu líkt og til Víetnam.
Við vorum því ekki alveg búnir að átta okkur á að hlutunum væri reddað þegar hún labbaði með okkur aftur til baka, fremst í röðina hjá innritunarborðinu og rétti okkur flugmiðana. Við vorum  alveg orðlausir og aldrei hefur svona þungu fargi verið af okkur létt enda föðmuðum við hana innilega í þakklætisskyni. Þvílíkur engill!
Við vorum alveg í sjöunda himni þar sem við biðum á flugvellinum á Balí, og ekki skemmdi fyrir skemmtikrafturinn sem við fylgdumst með á meðan við biðum. Þarna var strákur, örugglega ekki orðinn fimm ára, og alveg hreint spikfeitur! Hann hljóp, eða svona eins og hann gat, um flugstöðina og datt um allt og alla. Við skemmtum okkur konunglega.

Það að hann sé í Hard Rock bol er líka frábært

Það að hann sé í Hard Rock bol er líka frábært

Það var þriggja tíma millilending í Kuala Lumpur og þar komum við okkur fyrir á svipuðum stað og við reyndum að sofa á í 16 tíma stoppinu síðast. Rúmlega 11 vorum við svo komnir út í vél, og það var engin smá rella – á tveimur hæðum og tekur rétt um 500 farþega þar sem öll sætin virtust vera bókuð. Við tók um 8 tíma næturflug til Sydney, en það var nú frekar erfitt að ná góðum svefni um borð.
Við lentum í Sydney rétt fyrir 10 að staðartíma morguninn eftir og var ekkert mál að komast inn í landið. Hostelið okkar reddaði fari frá flugvellinum og vorum við mættir þangað rétt eftir hádegi. Við vorum skráðir í 6 manna sameiginlegt herbergi, en var boðið upp á tveggja manna herbergi þar sem það var laust. Við tókum það nú, en það var lítil kompa með einni koju sem var nú alveg nóg fyrir okkur. Það var svo sameiginlegt baðherbergi fyrir alla hæðina sem var nú bara ágætt, ásamt góðri eldunaraðstöðu fyrir allt hostelið.
Við vorum vel þreyttir eftir flugið svo við lögðum okkur aðeins, en um kvöldið röltum við aðeins um. Það kom okkur á óvart hvað borgin er aðgengileg og vegalengdir stuttar til að ganga, en fyrr en varir vorum við komnir að Darling Harbour sem virtist nú vera spöl frá hostelinu á korti. Þar sátum við í ljósaskiptunum og sáum rökkrið koma yfir borgina, og urðum um leið alveg heillaðir. Við löbbuðum áfram og fórum upp í Sydney Tower þó við höfðum ekki alveg verið viljugir til að borga okkur út á útsýnispallinn, en við erum nú enn að venjast verðmuninum miðað við í Asíu, en hér kostar allt álíka mikið og á Íslandi.

Jólatré við Darling Harbour

Jólatré við Darling Harbour

Í gær tókum við svo algjöran túristadag þar sem við fórum um alla helstu staði borgarinnar. Fórum um The Rocks fórum upp á Sydney Harbour Bridge og svo var það auðvitað toppurinn á ísjakanum,  sjálft óperuhúsið eftir frænda.

P1040085

P1040115

Sydney Harbour Bridge

Sydney Harbour Bridge

Tekið af Sydney Harbour Bridge

Tekið af Sydney Harbour Bridge

Röltum svo í gegnum Royal Botanic Gardens og sáum þar The Government House áður en við röltum áfram um borgina, í gegnum Hyde Park og áleiðis upp á hostel aftur, sannkallaður túristadagur.

Í Royal Botanic Garden

Í Royal Botanic Garden

Tré í garðinum

Tré í garðinum

Við The Government House

Við The Government House

Eftir tveggja mánaða ferðalag fannst okkur þó tími til kominn að kíkja í klippingu. Við löbbuðum inn á hárgreiðslustofu í kínahverfinu og var þar vel tekið af klippidömunum. Gengum svo út með jólaklippinguna klára.

Smá breyting á Orra

Smá breyting á Orra

Við erum þó enn að venjast hostellífinu, hér er stór og mikil eldunaraðstaða og kjörbúð við hliðina. Við erum þó enn svo verðblindir eftir Asíudvölina að við tökum allt það ódýrasta og á þessum dögum í Sydney höfum við aðallega lifað á þurru pasta og núðlum ásamt vatni – sannkallaður fangelsismatur. Það er því ekki tilhlökkun hjá okkur þegar kemur að því að borða. Við verðum hins vegar bara að sætta okkur við að hér þurfum við að eyða meira, við allavega verðum að næra okkur. Við erum annars mjög hrifnir af heimamönnum, allir rosalega vinalegir og andrúmsloftið allt mjög gott.

Við sendum hérna með planið okkar í Ástralíu eins og í síðasta bloggi, en það lítur svona út:

18/12 Sydney
19/12 Sydney

20/12 Næturrúta til Byron Bay
21/12 Byron Bay
22/12 Byron Bay
23/12 Byron Bay
24/12 Brisbane
25/12 Brisbane
26/12 Noosa
27/12 Noosa
28/12 Noosa
29/12 Rainbow Beach
30/12 Rainbow Beach
31/12 3 daga/2 nætur Fraser Island ferð

01/01 3 daga/2 nætur Fraser Island ferð
02/01 Fraser Island
03/01 Rainbow Beach
04/01 1770
05/01 1770
06/01 1770
07/01 1770
08/01 Airlie Beach
09/01 Airlie Beach
10/01 2 daga/2 nætur Whitsunday Sigling
11/01 2 daga/2 nætur Whitsunday Sigling
12/01 Airlie Beach
13/01 Airlie Beach
14/01 Magnetic Island
15/01 Magnetic Island

16/01 Mission Beach
17/01 Mission Beach
18/01 Cairns
19/01 Cairns
20/01 Cairns – Great Barrier Reef köfun
21/01 Flug til Auckland, Nýja Sjálandi

Lítið erum frítt net svo við vitum lítið hvenær við getum verið tengdir, en allt lítur mjög vel út og erum við bara spenntir fyrir framhaldinu.

Birt í Ástralía | 5 athugasemdir